Innlent

Trukkarnir koma á Búðarháls

Kristján Már Unnarsson skrifar

Ístak flutti í dag fyrstu tæki sín að Búðarhálsi. Óvissa ríkir þó áfram um hvenær virkjunarframkvæmdir þar komast á fullt skrið því verksamningurinn er háður því að Landsvirkjun fái lán á hagstæðum kjörum.

Ístaksmenn stefna að því að trukkarnir verði komnir í grjótflutninga á hálendinu eftir viku. Ekki verður þó hægt að segja að þar með fari framkvæmdir á fullt því Ístak hefur aðeins heimild til að vinna takmörkuð undirbúningsverk fyrir allt að 500 milljónir króna, eða sem svarar 5% af um 10 milljarða verksamningi.

Framhaldið er háð því að lán fáist á viðunandi kjörum til framkvæmdanna. Fjárfestingarbanki Evrópu hefur hins vegar ítrekað frestað því að afgreiða slíkt lán til Landsvirkjunar, með óformlegum skilaboðum um að frestunin tengist Icesave-deilunni.

Landsvirkjunarmenn binda þó vonir við að lánin fáist fyrir áramót. Það myndi þýða að Ístak yrði með allt að 80 manns í vinnu við Búðarháls í vetur. Að öðrum kosti verður verktakinn bara með um 40 manns um skamman tíma fram yfir áramót.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×