Lífið

Sýna á London Fashion Week

Hönnun Ostwald Helgason hefur vakið mikla athygli, enda flíkurnar litríkar og sérstaklega fallegar.
Hönnun Ostwald Helgason hefur vakið mikla athygli, enda flíkurnar litríkar og sérstaklega fallegar.

Hönnunartvíeykið Ostwald Helgason er skipað hönnuðunum Ingvari Helgasyni og hinni þýsku Susanne Ostwald. Undanfarið hefur hönnun þeirra verið fáanleg í London, París, New York, Hong Kong, Tókýó og KronKron í Reykjavík.

Ný sumarlína tvíeykisins hefur vakið athygli fyrir litríkar og fallegar flíkur og segir Ingvar þau hafa sótt innblástur í sitt nánasta umhverfi þegar línan var hönnuð.

Auk þess hafa þau gert samning við bresku vefverslunina ASOS.com um að hanna ódýrari fatalínu sem seld yrði á Netinu. „Línan fyrir ASOS verður ódýrari en okkar eigin lína og mun innihalda leggings og kjóla svo eitthvað sé nefnt. Þetta samstarf kemur okkur mjög vel því hönnun okkar verður aðgengilegri en einnig hefur ASOS lagt mikið á sig við að kynna línuna sem er auðvitað ómetanlegt," segir Ingvar, en línan ber heitið Ostwald Helgason at ASOS.

Hann segir mikinn mun á því að hanna eigin línu og að hanna fyrir ASOS. „Það er mikill munur á þessu tvennu. Í línunni fyrir ASOS eru fleiri reglur til að vinna eftir og maður þarf að huga að kostnaði og framleiðslu. Þegar við hönnum okkar eigin línu þá getum við leyft okkur að gera það sem við viljum."

 

Hinn íslenski Ingvar Helgason og hin þýska Susanne Ostwald skipa hönnunartvíeykið Ostwald Helgason.

Ingvar, sem er bróðir fjölmiðlamannsins Egils Helgasonar, hefur starfað innan tískubransans í níu ár en hefur hannað undir nafninu Ostwald Helgason í tvö ár. Hann segir samstarf þeirra og Susanne hafa gengið mjög vel og hafa þau haft í nógu að snúast undanfarin ár.

„Við verðum með fyrstu tískusýninguna okkar á tískuvikunni í London í september, en hingað til höfum við aðallega verið að taka þátt í sölusýningum í París. Við erum einnig að hanna og framleiða vetrarlínuna okkar fyrir næsta ár, þannig það er nóg að gera," segir Ingvar að lokum.

sara@frettabladid.is












Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.