Innlent

Kynnti áætlun um aukið samstarf á milli háskóla

Katrín Jakobsdóttir.
Katrín Jakobsdóttir. MYND/Anton

Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, kynnti fyrir ríkisstjórn í morgun áætlun um aukið samstarf og verkaskiptingu opinberu háskólanna með hugsanlega sameiningu að markmiði.

Í tilkynningu frá menntamálaráðuneytinu segir að áætlunin geri ráð fyrir því að innan fárra ára verði starfandi öflugt net opinberra háskóla sem bjóði upp á fjölbreytt háskólanám á öllum sviðum sem og betri nýtingu fjármuna. „Fyrsta skrefið í þá átt er að samræma og samhæfa ýmiss konar stoðþjónustu og stjórnkerfi háskólanna, s.s. tölvukerfi, nemendaskrár, kennsluskrár, launakerfi og fleira. Einnig er reiknað með að fjarkennsla verði notuð í auknum mæli."

Að mati mennta- og menningarmálaráðuneytisins er stofnun nets opinberu háskólanna nauðsynlegt til að standa vörð um fjölbreytt námsframboð og öflugar rannsóknir á sviðum sem eru veigamikil fyrir íslenskt samfélag. „Slíkt netsamstarf er jafnframt nauðsynlegur undanfari sameiningar á háskólastiginu, standi vilji til þess á síðari stigum. Þessar hugmyndir hafa verið til umræðu í nánu samstarfi við rektora allra háskóla í landinu á undanförnum vikum."

Þá segir að framangreind áætlun sé viðbragð við þeim niðurskurði til háskólanna sem þegar hefur orðið og er fyrirsjáanlegur á næstu árum. „Sú hagræðing sem háskólanet opinberu háskólanna myndi hafa í för með sér þarf því að gerast hratt. Við núverandi aðstæður leggur mennta - og menningarmálaráðuneytið mikla áherslu á að standa vörð um gæði og getu skólakerfisins. Það kallar á forgangsröðun, tilfærslu verkefna og að kraftar þeirra sem sinnt hafa þessum málaflokki verði í auknum mæli sameinaðir. Það kallar líka á góða samvinnu milli allra aðila sem koma að menntunarmálum háskólastigsins í landinu."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×