Skoðun

Hver ræður

Eiríkur Bergmann skrifar
Aukin tíðni þjóðaratkvæðagreiðslna er eitt af sex áhersluatriðum sem ég hef lagt til að stjórnlagaþingið ræði. Hin meginatriðin lúta að því að kjósa forsætisráðherra beinni kosningu, afnema kjördæmaskiptinguna, innleiða persónukjör í einhverr mynd, semja borgaralega réttindaskrá og hugsanlega að lækka kosningaaldurinn í sextán ár.

Tíðar þjóðaratkvæðagreiðslur eru að vísu engin töfralausn í þeirri stjórnmálakreppu sem nú er í landinu en rannsóknir sýna að almenningur er yfirleitt mun íhaldssamari og tregari til breytinga heldur en kjörnir fulltrúar sem hafa (samkvæmt kenningunni) tíma til að setja sig inn í flókin mál.

Fólk sem er í fullri vinnu við allt annað en að fylgjast með fínni blægrigðum þjóðmálaumræðunnar hefur auðvitað mun takmarkaðri möguleika á að setja sig inn í málin. Því er það nánast náttúrulegt varnarviðbragð þeirra sem standa fyrir utan hringiðu stjórnmálamanna að sporna fremur við breytingum heldur en að styðja framsækin mál.

Í Sviss, þar sem þjóðaratkvæðagreiðslur eru tíðari en víðast annars staðar, hefur reynst örðugra að ná fram ýmsum framfaramálum. Til að mynda fengu konur ekki kosningarétt í Sviss fyrr en árið 1970 því karlarnir kusu alltaf gegn því þegar málið var lagt fyrir þá í þjóðarartkvæðagreislu.

Þjóðaratkvæðagreiðslur eru því vandmeðfarnar og geta ef slælega er að málum staðið gert illt verra. Eigi að síður tel ég að þrátt fyrir þessa þekktu vankanta sé samt sem áður rétt að opan fyrir þjóðaratkvæðgareiðslur í ákveðnum vel skilgreindum tilvikum sem mikilvægt er að útfæra með skilmerkilegum hætti.

Málskotsrétturinn er nú höndum forseta eins og Íslendingar fengu að kynnast í kosningunni um Icesave í upphafi árs. Hugsanlega mætti færa málskotséttinn til þjóðarinnar þannig að beiðni tiltekins hlutfalls kjósenda dugi til að kalla fram þjóðaratkvæðagreiðslu um mikilvæg mál. Þá mætti einnig hugsa sér að tiltekinn minnihluti þingmanna gætu einnig farið fram á þjóðaratkvæðagreiðslur.






Skoðun

Sjá meira


×