Erlent

Obama: Bandaríkjamenn láta ekki hræða sig

Pakistaninn sem var handtekinn vegna misheppnaðs sprengjutilræðis á Times torgi í New York hefur viðurkennt verknaðinn. Barack Obama sagði í dag að hryðjuverkamenn muni aldrei beygja Bandaríkin.

Hinn 30 ára gamli Faisal Shazad var kominn um borð í flugvél frá Arabísku furstadæmunum sem var að fara til Dubai þegar lögreglumenn komu út á Kennedyflugvöll. Hann var handtekinn og tveir aðrir teknir frá borði með honum. Ekkert er vitað um þá en Shazad er sagður hafa viðurkennt sekt sína og sagst hafa verið einn að verki. Leyniþjónusta Pakistans hefur hinsvegar tilkynnt um nokkrar handtökur vegna sprengjutilræðisins á Times Square.

Barack Obama sagði í sjónvarpsávarpi til þjóðarinnar í dag að hryðjuverkamönnum myndi ekki takast ætlunarverk sitt.

„New York-búar hafa enn á ný minnt okkur á að bera höfuðið hátt. Við vitum að markmið þeirra sem reyna að gera þessar árásir er að neyða okkur til að lifa í ótta og þannig magna áhrif árásanna. En bandaríska þjóðin lætur ekki hræða sig. Við munum ekki hnipra okkur saman af ótta, við látum ekki kúga okkur. Við verðum árvökul, við vinnum saman og við munum verja landið og tryggja þjóðinni góða og hagsæla framtíð. Það hyggst ég gera sem forseti og það munum við gera sem þjóð," sagði Obama.

Shazad fékk bandarískan ríkisborgararétt árið 2007 en lítið annað hefur verið sagt um hann. Lögreglan er ennþá að gera vandlega húsleit heima hjá honum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×