Erlent

Reyndu að grafa sig inn í bankahvelfingu

Enn ein tilraunin var gerð í nótt til þess að grafa göng inn í bankahvelfinu í París. Þetta er þriðja tilraunin á þessu ári þar sem svokölluð termítagengi reyna þessa aðferð við bankarán. Í þetta sinn reyndu mennirnir að grafa sig inn í hvelfingu BNP Paribas bankans en höfðu ekki erindi sem erfiði og þurftu frá að hverfa. Áður en þeir forðuðu sér kveiktu þeir eld í kjallara bankans til þess að reyna að fela slóð sína.

Í síðustu viku var sama aðferð notuð við rán í Credit Lyonnais bankanum í París og þá komust þrjótarnir á brott með innihaldið úr 200 bankahólfum einstaklinga. Þá var svipað rán framvkæmt um áramótin síðustu í borginni en öll eru ránin óupplýst.

Franskir miðlar hafa líkt ránunum við "Spaggiari" ránið sem vakti heimsathygli fyrir 30 árum í frönsku borginni Nice. Þá komst bófaflokkur inn í bankahvelfingu með svona gangnagerð og hafði á brott með sér verðmæti að upphæð 24 milljóna evra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×