Handbolti

Kretzschmar: Verður erfitt fyrir ykkur Austurríkismenn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Linz skrifar

Stefan Kretzschmar, fyrrum landsliðsmaður Þýskalands í handbolta, á von á erfiðum leik hjá Austurríkismönnum sem mæta Íslendingum á EM í handbolta í dag.

EM í handbolta fer fram í Austurríki en Kretzschmar skrifar í dálki sínum í OÖ Nachrichten-dagblaðinu í dag að hann eigi von á erfiðum leik fyrir hönd gestgjafanna.

„Serbarnir komu mér virkilega á óvart þegar þeir náðu jafntefli gegn Íslandi. Það má greinilega ekki afskrifa þá,“ skrifar Kretschmar.

„En það sýnir hversu jöfn keppni Evrópumeistaramótið er. Og því verður þetta afar erfitt fyrir ykkur Austurríkismenn í dag. Í dag þýðir ekkert að vera með neina tilraunastarfssemi - það gæti reynst dýrkeypt.“

„Hins vegar komu Austurríkismenn mér þægilega á óvart í fyrsta leik liðsins,“ skrifaði hann enn fremur en þá töpuðu þeir naumlega fyrir Dönum, 33-29.

Hann minnist einnig á gengi þýska landsliðsins og tap liðsins fyrir Póllandi í fyrsta leik.

„Ég vildi geta sagt að það hafi komið mér á óvart. En liðið spilaði afar illa í leiknum. Þýskaland er því miður enn lengra frá toppnum en ég bjóst við.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×