Erlent

Gáfaðasti maður heims afþakkaði milljón dollara

Rússneskur stærðfræðingur, sem hefur verið kallaður gáfaðasti maður í heimi, afþakkaði eina milljón dollara á dögunum.

Dr. Grigori Perelman leysti Poincare gátuna sem lengi hefur verið talin ein sú erfiðasta í heimi stærðfræðinnar. Hann býr við fátæktarmörk í niðurníddri íbúð í Sankti Pétursborg í Rússlandi og skyldi maður ætla að hann tæki milljón dollurum, eða rúmum 128 milljónum íslenskra króna fegins hendi.

Clay stofnunin í Cambridge í Massachussets hafði heitið verðlaunafénu hverjum þeim sem gæti leyst gátuna og þegar Perelman gerði það bjuggust menn við því að hann myndi taka við fénu. Illa gekk þó að ná í snillinginn og þegar blaðamaður frá breska blaðinu Daily Mail bankaði loks upp á hjá honum í Pétursborg á dögunum neitaði hann að opna hurðina og sagðist ekkert hafa að gera við peningana þar sem hann vantaði ekkert.

Nú eru sjö ár liðin frá því Perelman leysti gátuna og hefur hann verið sæmdur fjölda verðlauna fyrir afrekið. Hann hefur hins vegar aldrei tekið við þeim. Vinir hans segja ennfremur að hann hafi misst áhugann á stærðfræði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×