Erlent

Óljóst hvað bíður Breta

Bretar vita raunar ekkert hvað bíður þeirra eftir þingkosningarnar sem fram fóru í dag. Það þykir þó næsta víst að Gordon Brown hverfi af sjónarsviðinu.

Ef marka má skoðanakannanir fær enginn flokkur hreinan meirihluta á þingi. Í Bretlandi er lítil hefð fyrir samsteypustjórnum nema á stríðstímum og því mikil óvissa um hvað gerist næst. Við ræddum það við Tom Parmenter hjá Sky fréttastofunni.

„Samsteypustjórn kæmi til greina. Við rennum þó nokkuð blint í sjóinn því slík stjórn hefur ekki setið síðan 1974. Það hefur ætíð verð óyggjandi sigurvegari kosninga en við gætum horft fram á þá stöðu á morgun að sá flokkur sem fær flest þingsæti í neðri málstofunni gæti e.t.v. gengið til samstarfs við Frjálslynda demókrata, þ.e. þriðja flokkinn. Því mun hugsanlega koma til samninga milli flokka um það hverjir muni verða við stjórn á Bretlandi. Kannski verður samsteypustjórn þar sem samið er um að einn flokkur leiði en á þessari stundu er allt galopið. Mikill áhugi er á framvindu mála hér," segir Parmenter.

Breskar skoðanakannanir eru oft ónákvæmar. Er einhver möguleiki á að Gordon Brown haldi velli? „Sá möguleiki er fyrir hendi að Verkamannaflokkurinn fái betri niðurstöður en búist er við. En hann er í öðru sæti í skoðanakönnunum núna og jafnvel í þriðja sæti í sumum könnunum. Útlitið er því vissulega ekki gott hjá Gordon Brown," segir Parmenter.

Kjörklefum í Bretlandi verður lokað klukkan níu í kvöld að íslenskum tíma og þá má búast við útgönguspám.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×