Erlent

Slógust um hvert atkvæði allt fram á síðasta dag

Leiðtogar þriggja stærstu flokkanna reyndu að fara sem víðast til að næla í kjósendur. Þarna er David Cameron að spjalla við íbúa bæjarins Hucknall.nordicphotos/afp
Leiðtogar þriggja stærstu flokkanna reyndu að fara sem víðast til að næla í kjósendur. Þarna er David Cameron að spjalla við íbúa bæjarins Hucknall.nordicphotos/afp

Leiðtogar þriggja stærstu stjórnmálaflokka Bretlands hafa síðustu daga barist um fylgi óákveðinna kjósenda í þeirri von að sannfæra nógu marga. Hugsanlega gætu kraftaverkin gerst á síðustu stundu.

David Cameron, leiðtogi Íhaldsflokksins, sagði flokk sinn berjast til sigurs með öllu sem til er að dreifa, en Gordon Brown forsætisráðherra sagði Verkamannaflokk sinn berjast um framtíð Bretlands.

Nick Clegg, leiðtogi Frjálslyndra demókrata, sagði tækifæri flokksins nú vera komið og hvatti kjósendur til að treysta á eðlisávísun sína.

Frjálslyndi flokkurinn hefur áratugum saman verið í aukahlutverki í breskum stjórnmálum, en óvæntur árangur Cleggs í fyrstu sjónvarpskappræðunum af þremur breyttu því.

Íhaldsflokki David Camerons hafði lengi verið spáð sigri, en nú virðist nokkuð ljóst að Clegg kemst í lykilstöðu og geti valið sér samstarfsflokk.

„Venjulega gerist það þannig að einhver sigrar og annar tapar, og þá segir sá sem tapar af sér í hádeginu og ráðleggur drottningunni að kalla á sinn fund þann sem sigraði,“ segir Peter Riddell, sérfræðingur hjá breskum hjálparsamtökum sem nefnast Institute for Government, og hafa það markmið að bæta stjórnmálalífið í Bretlandi.

Ef enginn flokkur hlýtur meirihluta, eins og flest bendir til að verði, þá fær forsætisráðherra samkvæmt hefðinni tækifæri til að mynda nýja stjórn, jafnvel þótt flokkur hans fái færri þingmenn en einhver annar flokkur.

Óvinsældir Browns eru hins vegar slíkar að óvíst er að hann fái annan flokk til þess að ganga til liðs við stjórnina.

Gefist Brown upp á stjórnarmyndun gengur boltinn væntanlega til þess flokks, sem flest þingsæti hlýtur. Allt bendir til þess að það verði Íhaldsflokkurinn, þannig að þá kemur til kasta Davids Cameron að mynda stjórn.

Greinilega myndu viðbrögð Nicks Clegg ráða ferðinni, en hann hefur hingað til forðast að gefa afgerandi svör um það hvort hann kjósi heldur að starfa með Brown eða Cameron.

gudsteinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×