Innlent

Blönduóslöggan tálguð í spýtu

Hin landsfræga Blönduóslögga er orðin uppspretta minjagripaframleiðslu. Listakona í bænum tálgar út lögreglumenn fyrir ökumenn til að hengja í baksýnisspegilinn.

Hrefna Aradóttir hefur tálgað frá barnsaldri, lærði listina af afa sínum, og nú er þetta starfið hennar. Vinnustofan er í bílskúrnum. Mest tálgar hún jólasveina fyrir minjagripaverslanir en líka mikið eftir sérpöntunum, eins og styttur af fermingarbörnum. Fermingardrengurinn Hjálmar er með gítarinn sinn og fótboltastelpan Elínborg í liðsbúningum með númer tvö á bakinu. Fyrir brúðkaup tálgaði hún brúðhjónin og börnin þeirra þrjú.

Í fyrra byrjaði hún svo að tálga Blönduóslögguna enda segir Hrefna fátt meira auglýsa Húnavatnssýslur heldur en löggan. Tréstytturnar eru hugsaðar til að hengja upp í baksýnisspegla. Betra sé að hafa lögguna með sér en á móti, segir Hrefna.

Heimamenn tala um að andlitin á styttunum séu eins og andlit lögreglumannanna á Blönduósi. Hrefna segir að lögreglumennirnir tali um að þeir þekki sig en hún kveðst ekki vera að búa til ákveðin andlit. Það bara komi karakterar sem eru í spýtunni.

Þetta urðum við auðvitað að kanna betur svo við skunduðum niður á lögreglustöð með listakonunni. Þar tók Vilhjálmur Stefánsson lögreglumaður á móti okkur. Hann kvaðst ekki í neinum vafa um að hann væri fyrirmyndin að löggunni á einni styttunni. Við erum alveg eins, þetta er ég, sagði hann og hló.

Að öllu gamni slepptu þá eru lögreglumennirnir ánægðir með ef löggustytturnar minna menn á að aka ekki of greitt. Að menn virði umferðarreglurnar og komist heilu og höldnu á áfangastaði.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×