Lífið

Rjúkandi sala á Rómeó og Júlíu

Gísli Örn og félagar í Vesturporti trekkja að í Borgarleikhúsið.
Gísli Örn og félagar í Vesturporti trekkja að í Borgarleikhúsið.

Rjúkandi sala er á sýningu Vesturports í Borgar­leikhúsinu á Rómeó og Júlíu en hin rómaða sýning frá 2002 hefur farið víða en snýr nú aftur að þessu sinni á stóra svið Borgarleikhússins. Þegar er uppselt á sjö sýningar og örfáir miðar voru til í gær á sýningar 8. og 9. júní.

Þegar hefur verið bætt við aukasýningum en árskortagestir nýttu sér margir í haust að verkið var á dagskrá Borgarleikhússins á þessu vori. Aukasýningar verða 13., 18., 19. og 20. júní og ættu áhugasamir að tryggja sér miða í tíma.

Önnur sýning Vesturports í samstarfi við LR í Borgarleikhúsi, Faust, er líka á fjölum stóra sviðsins og eru þrjá sýningar í sölu hjá Borgarleikhúsinu: 20., 27. og 29. maí. Faust er svo á leið til London næsta haust og er frumsýning þar fyrirhuguð 1. október og verður sýnt í sex vikur samfleytt.

Sýningin verður sýnd sjö sinnum í viku og er því ljóst að 42 sýningar á uppsetningunni verða í boði fyrir erlenda leikhúsgesti. Sýningin verður hluti af afmælisdagskrá Young Vic-leikhússins sem fagnar 40 ára afmæli sínu í haust.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.