Innlent

Hlunnindi starfsmanna OR tekin til endurskoðunar

Hlunnindi starfsmanna Orkuveitunnar hafa verið tekin til endurskoðunar að sögn Hjörleifs Kvarans, forstjóra Orkuveitunnar. Ástæðan er Benz bifreið sem var keypt á dögunum fyrir fjármálastjóra fyrirtækisins en upphaflega var greint frá málinu í DV.

Hlunnindin voru harðlega gagnrýnd í kjölfarið, meðal annars af Jóni Gnarr, sem er tilvonandi borgarstjóri Reykjavíkur. Bíllinn kostaði um sjö milljónir og þótti skjóta skökku við í ljósi bágra stöðu Orkuveitunnar sem burðast með háar skuldir auk þess sem hún hefur boðað hækkun á heitu vatni til þess að mæta erfiðleikunum.

Að sögn Hjörleifs voru 11 starfsmenn með hlunnindi líkt og fjármálastjórinn. Þeim hefur þegar verið fækkað niður í sex starfsmenn og nú á að endurskoða hlunnindi þeirra. Hjörleifur tilkynnti starfsmönnunum að hlunnindin yrðu tekin til endurskoðunar.

„Þetta er partur af ráðningarkjörum starfsmanna og það tekur tíma að breyta þessu," segir Hjörleifur og bætir við að þetta sé gert í ljósi tíðarandans og umræðunnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×