Erlent

Rekinn fyrir góðverk

Óli Tynes skrifar

Breski póstburðarmaðurinn átti að baki tíu ára flekklausan feril. Hann þekkti orðið persónulega margt af því fólki sem bjó í því hverfinu þar sem hann bar út póstinn.

Hann var einmitt við hús þar sem bjó veikburða eldri kona þegar komið var með ábyrgðarsendingu til hennar. Í ljós kom að hún var ekki heima.

Það er snjóþungt í Bretlandi þessa dagana og götur illfærar. Pósturinn vissi að fyrst konan var ekki heima yrði hún að fara sjálf að fara á pósthúsið til þess að sækja ábyrgðarsendinguna.

Til þess að spara henni þau spor kvittaði hann sjálfur fyrir sendinguna og setti hana inn um póstlúguna.

Þegar gamla konan kom heim og sá póstinn sinn varð hún ákaflega glöð yfir þessari hugulsemi.

Hún hringdi því á pósthúsið til þess að þakka fyrir sig. Það símtal lenti hjá yfirmanni sem varð lítt hrifin af framtaki póstsins.

Það var augljóst brot á reglum hjá honum að kvitta fyrir sendinguna. Pósturinn góðhjartaði var því rekinn.

Breskur þingmaður hefur nú tekið mál hans til athugunar.

Þegar hann fór að kanna málið komst hann að því að á viðkomandi útibúi sem sinnir til þess að gera litlu svæði hafa fjörutíu og sex póstburðarmenn verið látnir hætta störfum undanfarin misseri.

Yfirmenn pósthússins eru nú til skoðunar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×