Lífið

Há áfengisgjöld sliga Karamba

Æ Karamba! María Hjálmtýsdóttir eigandi Karamba verður að loka dyrum staðarins um helgina og hún og starfsfólkið eru mjög ósátt.
Æ Karamba! María Hjálmtýsdóttir eigandi Karamba verður að loka dyrum staðarins um helgina og hún og starfsfólkið eru mjög ósátt. Fréttablaðið/Anton
„Starfsfólkið grét þegar við tilkynntum að við gætum ekki haldið áfram rekstri," segir María Hjálmtýsdóttir eigandi skemmtistaðarins Karamba sem lýkur starfsemi sinni eftir helgina. Staðurinn hefur verið starfræktur í eitt og hálft ár á horni Laugavegar og Klapparstígs og notið vinsælda í skemmtistaðaflóru miðbæjarins.

„Það eru aðallega há áfengisgjöld og há leiga sem eru að gera út af við okkur. Við erum búin að reyna okkar besta í að halda áfram á þessum stað en það gengur því miður ekki," segir María og bætir við að það sé ekki auðvelt að vera í bar- og veitingahúsabransanum í dag.

„Áfengisgjöldin eru svimandi há. Ég var til dæmis að kaupa áfengi núna áðan fyrir helgina og um helmingurinn af upphæðinni sem ég borgaði voru gjöldin og virðisaukaskattur," segir María.

Þegar leigan í miðbænum hækkaði var ljóst að rekstur Karamba mundi ekki standa undir sér. „Það má kannski segja að það sé verið að henda okkur út."

María segir að starfsfólkið sé mjög ósátt og reitt en flestir hafa verið að vinna á staðnum síðan hann opnaði. „Við erum eins og einn stór vinahópur og þeir sem eru staddir í útlöndum núna hringdu grátandi í okkur. Trúðu ekki að við værum að loka um helgina."

María er ósátt við hvernig komið er fram við rekstraraðila öldurhúsa og að það sé ekki mikið sem situr eftir í kassanum eftir að öll aukagjöldin eru borguð.

„Við höfum líka fundið fyrir því að fólk hefur minnkað komur sínar niður í bæ um helgar. Fleiri eru farnir að vera bara heima í partíum vegna þess að við verðum að hækka verðið á barnum í samræmi við kostnað," segir María en hún lokar ekki fyrir það að staðurinn Karamba muni opna aftur á öðrum stað.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×