Lífið

Kvikmynd Richards Scobie fer á ráðstefnu í Hollywood

Richard Scobie skrifar handrit að nýrri spennumynd sem á eftir að vekja mikla athygli. Fréttablaðið/Valli
Richard Scobie skrifar handrit að nýrri spennumynd sem á eftir að vekja mikla athygli. Fréttablaðið/Valli
Kvikmyndin Sextíu og sex gráður norður hefur verið valin á sérstaka framleiðendaráðstefnu í Hollywood sem haldin er á vegum PGA, samtökum framleiðenda í Bandaríkjunum. Höfundar handritsins eru þeir Kristinn Þórðarson og Richard Scobie en leikstjóri myndarinnar er Egill Örn Egilsson, betur þekktur sem Eagle Egilsson.

„Við erum allir gamlir vinir, ég og Egill Örn höfum nánast verið saman í bekk síðan við vorum átta ára," segir Kristinn í samtali við Fréttablaðið. Scobie er hins vegar eflaust þekktastur fyrir söng sinn í Loðinni rottu og Rickshaw en hann hefur að undanförnu verið að hasla sér völl í kvikmyndagerð, leikstýrði meðal annars myndbandi fyrir Geir Ólafs og er að fara slíkt hið sama fyrir Virgin Tongues. Þá hefur Scobie einnig verið að leikstýra auglýsingum. Svo skemmtilega vill reyndar til að Scobie og Eagle unnu saman fyrir allnokkrum áratugum við gerð myndbands fyrir Rickshaw. En það er önnur saga. „Við Kristinn byrjuðum að skrifa þetta handrit fyrir nokkrum árum og komumst síðan í kynni við írskan framleiðanda að nafni Edwina Forkin og þá fóru hjólin að snúast fyrir alvöru," segir Richard í samtali við Fréttablaðið. Edwina þessi er að sögn Richard feikilega virt í hinum óháða írska kvikmyndageira og vel tengd á réttu staðina.

Í kjölfarið var ákveðið að sækja um þátttöku á áðurnefndri ráðstefnu PGA þar sem fólk getur komist í tæri við stórlaxa úr bandarískri kvikmyndaframleiðslu og hugsanlega náð í fjármagn fyrir verkefni sín. „Þeim berast mörg hundruð umsóknir. En þar sem Ísland hefur verið svo mikið til umfjöllunar undanfarin ár þá held ég að það hafi hjálpað okkur. Menn hafa áhuga á öllu því sem kemur frá Íslandi," segir Richard en ráðstefnan stendur frá 4.-6. júní. Richard segist ekki vita nákvæmlega hvenær þeir fari af stað og veit sem er að þetta er harður bransi. „Við erum náttúrlega bara að henda okkur út í gin ljónsins. En þetta er rosalega gott og stórt tækifæri fyrir okkur," útskýrir Richard.

freyrgigja@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.