Handbolti

Björgvin Páll: Erfitt að kyngja þessu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Linz skrifar
Björgvin Páll Gústavsson í leiknum í kvöld.
Björgvin Páll Gústavsson í leiknum í kvöld. Mynd/Leena Manhart
Björgvin Páll Gústavsson sýndi heimsklassamarkvörslu í fyrri hálfleik leiks Íslands og Serbíu á EM í handbolta í kvöld en það dugði ekki til sigurs. Niðurstaðan var jafntefli, 29-29.

„Það er erfitt að kyngja þessu. Þetta voru rosalegar lokamínútur og við vorum algjörir aular að klúðra þessu eins og við gerðum."

„Við vorum með þá í vasanum allan leikinn en hleypum þeim svo aftur inn í hann vegna klaufaskaps. Við vorum bæði passívir í vörninni og misnotuðum einnig færi. Við áttum í raun að klára leikinn í fyrri hálfleik því þá fengum við tækifæri til þess."

Björgvin náði ekki að verja skot í upphafi síðari hálfleik og var skipt út af eftir um sjö mínútna leik. Hann var ekki sáttur við það.

„Ég er aldrei sáttur þegar ég er tekinn af velli, sama hvað ég var búinn að verja mörg skot. Það er bara vegna keppnisskapsins í mér. Hreiðar átti mjög fína innkomu í leikinn en þar sem að varnarleikurinn var ekki jafn góður í seinni hálfleik og þeim fyrri mátti búast við því að það myndi einnig bitna á markvörslunni."

Hann sá þó eitthvað jákvætt við niðurstöðu leiksins. „Það er ákveðinn styrkleiki fólginn í þeirri staðreynd að við erum ósáttir við jafntefli. Þetta er tapað stig en ekki unnið. Við höfum nú einn dag til að jafna okkur og við munum svo byrja að einbeita okkur að næsta leik strax á morgun."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×