Erlent

Fleiri kjördæmi færri konur

Allar konur á Lögþingi og í landstjórn Færeyja hafa sameinast um ályktun gegn þingsályktunartillögu um að skipta Færeyjum upp í fimm kjördæmi, en eyjarnar eru nú eitt kjördæmi.

Konurnar, sem eru úr fjórum stærstu stjórnmálaflokkunum, benda á að á lögþinginu séu einungis fimmtán prósent þingmanna konur, eða fimm af 33. Þrjár eru að auki í landsstjórn.

Nær ómögulegt hafi verið fyrir konur, úr öðrum kjördæmum en því þéttbýlasta, að komast á þing áður en þeim var fækkað úr sjö í eitt árið 2008. Í fjórum gömlu kjördæmanna hafi til að mynda engin kona nokkurn tíma verið kjörin á þing.

Það að fjölga kjördæmunum að nýju vinni gegn hugmyndum um jöfnuð meðal fulltrúa kvenna og karla á þingi.

Færeyski Sósíalurinn segir frá þessu og getur þess einnig að á sama tíma og Færeyingar ræða um að fjölga kjördæmum að nýju ætli Íslendingar að gera allt sitt land að einu kjördæmi. Einnig er þess getið að fleiri konur en karlar standi að íslensku tillögunni. - kóþ






Fleiri fréttir

Sjá meira


×