Innlent

Frestað að skipa í rannsóknarnefnd Reykjavíkur

Þorleifur Gunnlaugsson er ekki sáttur við frestunina.
Þorleifur Gunnlaugsson er ekki sáttur við frestunina.

Þorleifur Gunnlaugsson, borgarfulltrúi Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, sakar meirihluta borgarstjórnar, um að draga lappirnar í skipun rannsóknarnefndar Reykjavíkurborgar sem á að skoða mál borgarinnar líkt og rannsóknarnefnd Alþingis gerði. Skipa átti í nefndina í dag en þegar hafa 30 einstaklingar sótt um starfið að sögn Þorleifs.

Tillaga, sem Þorleifur lagði fram í lok apríl, var samþykkt á borgarstjórnarfundi fyrr í maí. Þá var ákveðið að skipa ætti í nefndina í dag og að hún skyldi skila inn tillögum í byrjun júní.

Það var hinsvegar ákveðið á borgarráðsfundi í dag að fresta því að skipa í nefndina. Þorleifur gagnrýnir það harkalega og segir hafa það á tilfinningunni að meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknar vilji ekki ganga frá þessu máli.

„Þau segjast ekki hafa tíma til þess að fara yfir umsóknina," segir Þorleifur um viðbrögð meirihlutans. Spurður hvort það sé ekki eðlilegt í ljósi þess að sveitarstjórnarkosningar eru á næsta leiti svara Þorleifur: „Borgarstjórn ákvað að það ætti að skipa í nefndina í dag."

Þorleifur segir að það liggi á þessu máli til þess að endurvekja traust almennings á stjórnsýslu borgarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×