Erlent

Bakajev flúinn til Afganistans

Kurmanbek Bakijev neitar að viðurkenna bráðabirgðastjórn byltingarmanna. NOrdicphotos/AFP
Kurmanbek Bakijev neitar að viðurkenna bráðabirgðastjórn byltingarmanna. NOrdicphotos/AFP
Þúsundir manna söfnuðust saman á aðaltorgi Biskeks, höfuðborgar Kirgisistan, til að minnast þeirra sem féllu í átökum í vikunni þegar stjórn Kurmanbeks Bakijev forseta var steypt af stóli.

Að minnsta kosti 76 manns létu lífið í átökunum og meira en 1.400 særðust.

Mikil reiði var meðal mannfjöldans vegna dauðsfallanna og var Bakijev kennt um, en hann var kominn til borgarinnar Jalalabad í Afganistan þar sem hann ræddi við fréttamenn í gær.

Hann sagðist hreint ekki hafa í hyggju að segja af sér, þrátt fyrir að hafa verið sviptur völdum. Hann kennir byltingarmönnum um dauðsföllin.

Bakijev komst til valda í túlípanabyltingunni svonefndu árið 2005 og hefur tekist að koma á stöðugleika í þjóðfélaginu síðan, en er sagður hafa gert það á kostnað lýðræðis og sakaður um að hafa notfært sér embættið til að hagnast persónulega.

„Ég held að hans bíði dapurleg örlög vegna þess að með því að gefa öryggisvörðum skipun um að skjóta á mannfjöldann undirritaði hann sinn eigin dauðadóm,“ sagði Askar Akajev, forveri hans í embætti, sem var sakaður um sams konar misbeitingu valds á sínum tíma. Akajev kennir nú stærðfræði við ríkisháskólann í Moskvu.- gb



Fleiri fréttir

Sjá meira


×