Erlent

Sprengja aftengd á Times torgi

Heimir Már Pétursson skrifar

Stórtjóni og mannfalli var forðað í miðborg New york í gærkvöldi þegar sprengjusérfræðingum tókst að aftengja sprengju sem fannst í bíl á Time Square.

Götusali við Times Square gerði lögreglu viðvart um reyk sem kom frá dökkgrænum bíl sem stóð við torgið í gærkvöldi. Við nánari eftirgrennslan kom í ljós að bíllinn var fullur af sprengiefni. Svo virðist sem kveikibúnaður sprengjunnar hefur brugðist en talið er að hún hafi átt að springa um hálf sjö leytið að staðartíma í gærkvöldi.

Michael Bloomberg borgarstjóri New York borgar sagði á blaðamannafundi í morgun að ljóst væri að komið hefði verið í veg fyrir mjög alvarlegt tilræði. Sprengjan var mjög viðvanginsleg en hefði engu að síður geta valdið miklu tjóni. Inni í bílnum var mikið magn af gaskútum, bensínbrúsum og flugeldum sem tengt var við frumstæðan kveikibúnað sem tengdur var tveimur klukkum.

Torginu var lokað eftir að sprengjan fannst en talsverður fjöldi fólks var á svæðinu á þeim tíma sem sprengjan átti að springa. Lögregla fer nú yfir upptökur úr öryggismyndavélum til að reyna að bera kennsl á þann sem lagði bílnum. Bíllinn var skilinn eftir í gangi með blikkandi stöðvunarljós ljós skömmu áður en götusalinn varð var við reyk sem lagði frá bílnum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×