Erlent

Pútín og Medvedev boða stríðsaðgerðir

Læknar og björgunarfólk aðstoða særðan mann fyrir utan lestarstöðina Park Kúltúrí í Moskvu. nordicphotos/AFP
Læknar og björgunarfólk aðstoða særðan mann fyrir utan lestarstöðina Park Kúltúrí í Moskvu. nordicphotos/AFP
„Við munum halda áfram að berjast gegn hryðjuverkamönnum án þess að hvika þar til yfir lýkur,“ sagði Dmitrí Medvedev, forsætisráðherra Rússlands, eftir að tvær konur höfðu sprengt sig í loft upp á tveimur lestarstöðvum í Moskvu í gær. Auk árásarkvennanna létu að minnsta kosti 38 manns lífið og sextíu manns særðust.

Fyrri sprengjan sprakk rétt fyrir klukkan átta í gærmorgun á lestarstöðinni Lúbjanka, sem er undir höfuðstöðvum leyniþjónustunnar FSB, arftaka hinnar illræmdu KGB.

Seinni sprengingin varð um 45 mínútum síðar á lestarstöðinni Park Kúltúrí, sem er skammt frá hinum þekkta Gorkígarði í Moskvu.

Báðar sprengjurnar sprungu þegar lest var nýkomin á stöðina og dyrnar voru að opnast.

„Ég heyrði sprengingu, sneri höfðinu og reykur var alls staðar. Fólkið hljóp öskrandi að útgönguleiðunum,“ sagði Alexander Vakulov, 24 ára maður sem var á Park Kúltúrí-stöðinni í lest á öðrum brautarpalli gegnt þeim sem varð fyrir árásinni.

Bæði Vladimír Pútín forseti og Dmitrí Medvedev forsætisráðherra höfðu í gær stór orð um að refsa tsjetsjensku uppreisnarhópunum, sem taldir eru bera ábyrgð á árásinni.

Pútín sagði að hryðjuverkamönnunum yrði hreinlega tortímt og Medvedev sagði að baráttunni gegn hryðjuverkamönnum yrði haldið áfram þar til yfir lyki.

Hvorugur þeirra nefndi þó neitt ákveðið um væntanleg viðbrögð stjórnvalda. Rússneski herinn vann að mestu sigur á uppreisnarsveitum Tsjetsjena með þungum árásum í stríði fyrir um það bil áratug, en síðan hafa uppreisnarhópar engu síður gengið lausum hala í fjallahéruðum og skóglendi Tsjetsjeníu þrátt fyrir að stjórn héraðsins hafi verið vinveitt Moskvustjórn.

Lestarstöðvarnar tvær í Moskvu voru opnaðar á ný um fjögurleytið. Einu ummerki atburða dagsins voru göt eftir sprengjubrot á veggjum stöðvanna.

Vegfarendur voru þó varir um sig fyrst í stað. „Þetta er skelfilegt,“ sagði einn þeirra, sextán ára piltur að nafni Vasilí Vlastinin. „Það er orðið hættulegt að taka jarðlestirnar, en ég held samt áfram að ferðast með þeim. Maður þarf einhvern veginn að komast í skóla eða vinnu.“

gudsteinn@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×