Innlent

Þreifingar byrjaðar í Reykjavík

Þorbjörn Þórðarson skrifar

Fulltrúar frá bæði Sjálfstæðisflokki og Samfylkingu höfðu í dag samband af fyrra bragði við Jón Gnarr og óskuðu eftir viðræðum um samstarf. Ekki er sjálfgefið að formlegur meirihluti verði myndaður í Reykjavík, en Jón Gnarr, oddviti Besta flokksins, hefur dregið nauðsyn þess í efa.

Eftir söguleg úrslit kosninganna í gær með sex kjörna fulltrúa hefur Besti flokkurinn framtíð Reykjavíkurborgar í hendi sér, en alls óvíst er hvort myndaður verði meirihluti.

Fulltrúar Samfylkingarinnar hittust á heimili Dags B. Eggertssonar í Þingholtunum í morgun. Í morgun hafði Dagur ekki rætt við Jón Gnarr um myndun meirihluta.

„Ég hef ekki rætt við hann ennþá, en ég geri ráð fyrir að ræða við hann í dag," sagði Dagur B. Eggertsson fyrir utan heimili sitt í morgun.

Mikill leynd hvíldi yfir fundarstaðnum og á Facebook-síðu flokksins birtust einföld skilaboð: „Leynifundur BF að hefjast." Þau auglýstu semsagt leynifund, hugsanlega í þágu sjálfbærs gegnsæis, kynni einhver að spyrja sig.

Einn fundarmanna sagði í samtali við fréttastofu að á fundinum hefðu menn drukkið mikið latté og rætt um hvernig Ray Ban sólgleraugu Jón Gnarr ætti að fá sér. Þá bar sjónvarpsþátturinn Wire á góma.

Samkvæmt heimildum fréttastofu höfðu fulltrúar bæði Samfylkingar og Sjálfstæðisflokksins samband að fyrra bragði við Jón Gnarr og borgarfulltrúa Besta flokksins í dag og óskuðu eftir viðræðum. "Síminn hefur ekki stoppað," sagði heimildarmaður innan úr Besta flokknum.

Jón Gnarr hefur dregið meirihlutasamstarf í efa, en í gær sagði hann:

„Þarf þettta alltaf að vera meirihluti eða minnihluti, er ekki til eitthvað annað til þess að reka borgina?" spurði Jón.

Hanna Birna Kristjánsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokks, hefur talað fyrir breyttum vinnubrögðum og auknu samstarfi í anda þess sem Jón Gnarr hefur rætt, en ekki náðist í Hönnu Birnu í dag. Engir fundir eru fyrirhugaðir milli oddvita flokkanna, samkvæmt upplýsingum fréttastofu og hyggst Besti flokkurinn að fara sér hægt.









Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×