Handbolti

Toppliðin unnu öll í Þýskalandi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Snorri Steinn Guðjónsson í leik með íslenska landsliðinu.
Snorri Steinn Guðjónsson í leik með íslenska landsliðinu. Mynd/Daníel

Lítið breyttist í toppbaráttu þýsku úrvalsdeildarinnar í handbolta um helgina nema að Rhein-Neckar Löwen og Göppingen eru nú í mjög góðri stöðu í baráttunni um síðustu Evrópusætin.

Gummersbach tapaði fyrir Flensburg, 34-25, á laugardaginn og er nú þremur stigum á eftir Göppingen og fjórum á eftir Rhein-Neckar Löwen þegar þrjár umferðir eru eftir.

Um leið styrkti Flensburg stöðu sína í þriðja sæti deildarinnar og er líklega á leið í Meistaradeildina ásamt toppliðum Hamburg og Kiel. Göppingen og Löwen verða að láta sér EHF-bikarkeppnina að góðu á næsta tímabili.

Alexander Petersson skoraði tvö mörk fyrir Flensburg í leiknum og Róbert Gunnarsson tvö fyrir Gummersbach.

Efstu fimm lið deildarinnar unnu öll sína leiki um helgina. Aron Pálmarsson skoraði þrjú mörk fyrir Kiel sem vann Hannover-Burgdorf á útivelli, 32-25. Hannes Jón Jónsson skoraði fjögur mörk fyrir síðarnefnda liðið.

Kiel er enn einu stigi á eftir toppliði Hamburg sem vann Lübbecke á útivelli, 28-25. Þórir Ólafsson skoraði fimm mörk fyrir Lübbecke og Heiðmar Felixsson þrjú.

Rhein-Neckar Löwen vann Magdeburg, 35-24. Snorri Steinn Guðjónsson skoraði fimm mörk fyrir Löwene og Ólafur Stefánsson fjögur.

Tvö Íslendingalið eru í neðstu tveimur sætum deildarinnar og eiga nú aðeins möguleika á að bjarga sér frá falli með því að komast upp í sextánda og þriðja neðsta sætið sem veitir umspilsrétt um sæti í úrvalsdeildinni á næstu leiktíð.

Dormagen er nú í þriðja neðsta sætinu með þrettán stig en Minden og Düsseldorf eru í neðstu sætunum með tíu stig hvort.

Minden tapaði fyrir Lemgo um helgina, 38-24. Vignir Svavarsson skoraði sjö mörk fyrir Lemgo en Gylfi Gylfason sex fyrir Minden. Ingimundur Ingimundarson var ekki í leikmannahópi Minden, né heldur Logi Geirsson hjá Lemgo.

Þá tapaði Düsseldorf fyrir Grosswallstadt á heimavelli, 27-19. Sturla Ásgeirsson skoraði eitt mark fyrir fyrrnefnda liðið en Einar Hólmgeirsson ekkert fyrir Grosswallstadt.

Önnur úrslit helgarinnar:

Wetzlar - Balingen 23-26

Göppingen - Dormagen 33-24

Füchse Berlin - Melsungen 31-25

- Rúnar Kárason skoraði eitt mark fyrir Füchse Berlin






Fleiri fréttir

Sjá meira


×