Lífið

Dýrasta málverk heims selt á 13,6 milljarða

Málverkið dýra í sýningarsal Christie´s í New York. Mynd/AP
Málverkið dýra í sýningarsal Christie´s í New York. Mynd/AP

Á þriðjudag var málverk eftir Picasso frá 1932 selt í New York á hæsta verði sem um getur fyrir einstakt verk. Málverkið, sem ber heitið Nakin, græn lauf og brjóst, var slegið á 106 milljónir dollara eða 13,6 milljarða kr. á uppboði hjá Christie"s og var kaupandinn óþekktur en bauð gegnum síma. Tókust átta bjóðendur á um verkið í níu mínútur.

Picasso málaði verkið árið 1932 en það hefur verið í eigu hjónanna Frances og Sidney Brody, þekktra listaverkasafnara í Los Angeles, frá sjötta áratug síðustu aldar. Það hafði aðeins einu sinni verið sýnt opinberlega frá þeim tíma eða árið 1961. Fyrra metverð fyrir listaverk á uppboði átti bronsstyttan L'Homme qui marche I (Gangandi maður I) eftir Alberto Giacometti en það var selt í febrúar sl. fyrir 104,3 milljónir dollara.

Hluti af söluverðinu fer til styrktar Huntington-bókasafninu - listadeild og Grasagarðinum í San Marino í Kaliforníu en Brody sat þar í stjórn. Þriðja hæsta verð sem fengist hefur á uppboði var líka eftir Picasso: 104,2 milljónir dala fyrir Dreng með flautu sem var selt á uppboði Sotheby"s árið 2004.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.