Lífið

Framleiðendur kætast yfir goslokum

Lilja Ósk Snorradóttir og Leifur B. Dagfinnsson eru fegin að gosinu sé lokið. Erlendir aðilar séu loks aftur farnir að hringja og senda tölvupósta.
Lilja Ósk Snorradóttir og Leifur B. Dagfinnsson eru fegin að gosinu sé lokið. Erlendir aðilar séu loks aftur farnir að hringja og senda tölvupósta.

„Það varð allt stopp í gosinu. Ég held samt að gosið sjálft hafi ekki haft mestu áhrifin heldur sú staðreynd að flugvellir í Evrópu voru að lokast," segir Kristinn Þórðarson hjá Saga Film.

Símar hjá íslenskum framleiðslufyrirtækjum eru farnir að hringja á ný og fyrirspurnir í tölvupóstum teknar að berast eftir að öll þjónusta við erlend kvikmyndagerðarfyrirtæki hafði nánast legið niðri síðan eldgosið í Eyjafjallajökli hófst. Nú virðist gosið hins vegar búið þótt ekki sé búið að gefa úr formlega yfirlýsingu um endalok þess.

Íslensk framleiðslufyrirtæki hafa notið góðs af því að gera auglýsingar hér á landi fyrir erlend stórfyrirtæki en sá iðnaður lognaðist nánast út af á meðan askan þeyttist úr iðrum jarðar.

Lilja Ósk Snorradóttir, framkvæmdarstjóri Pegasus, tekur undir orð Kristins. „Eiginlega um leið og fyrsta goslokafréttin birtist á netinu fóru símarnir að hringja og fyrirspurnir tóku að berast eftir að þessi markaður hafði legið niðri."

Leifur B. Dagfinnsson hjá True North hefur sömu sögu að segja, nánast engar fyrirspurnir eða símhringingar hafi komið á meðan á gosinu stóð. „En nú er þetta aðeins öðruvísi, það tekur auðvitað sinn tíma að koma þessu aftur af stað en það eru allavega símar farnir að hringja," segir Leifur. -fgg








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.