Innlent

Fóru létt með tólf tíma ferð

Hér fer Magnús fyrir bekkjarfélögum sínum. Hann segir enga keppni hafa verið á milli strákanna en hann var eigi að síður fyrstur upp eftir. fréttablaðið/gva
Hér fer Magnús fyrir bekkjarfélögum sínum. Hann segir enga keppni hafa verið á milli strákanna en hann var eigi að síður fyrstur upp eftir. fréttablaðið/gva
„Þetta var virkilega gaman en þetta tók líka á. Við vorum sex klukkutíma hvora leið,“ segir Magnús Pálsson, nemandi í 7. bekk Landakotsskóla, sem leiddi fjórtán bekkjarfélaga sína í hjólaferð upp í Bláfjöll í liðinni viku.

Allir sem einn úr bekknum tóku þátt í ferðinni sem tókst frábærlega, að sögn Guðbjargar Magnúsdóttur, umsjónarkennara bekkjarins. Gist var eina nótt í skála Breiðabliks í Bláfjöllum. Í sjöunda bekk eru fimmtán krakkar, sex strákar og níu stelpur, en auk Guðbjargar voru fjórir sjálfboðaliðar á vegum Hjólafærni á Íslandi með í för. Stefanía Traustadóttir kennari hefur veg og vanda af skipulagningu ferðanna en með þeim vill hún efla vitund ungs fólks um sjálfbæra, umhverfisvæna, heilsubætandi og ánægjulega ferðamennsku.

„Það var kvöldvaka í skálanum og við horfðum á Eurovision. Það myndaðist fín stemning,“ segir Magnús þegar hann er spurður um hvað menn gerðu sér til dundurs í skálanum í Bláfjöllum og ekki duldist blaðamanni að ferðin var mikið ævintýri fyrir hópinn allan. - shá



Fleiri fréttir

Sjá meira


×