Innlent

Stjórnvöld bregðast við hættu á netinu

Hættur sem ógnað geta almenningi, fyrirtækjum og jafnvel stjórnvöldum má finna víða á netinu.Fréttablaðið/Hari
Hættur sem ógnað geta almenningi, fyrirtækjum og jafnvel stjórnvöldum má finna víða á netinu.Fréttablaðið/Hari

Ríkisstjórnin samþykkti í gær að stofna sérstakt öryggis- og viðbragðsteymi til að vinna gegn og bregðast við netárásum.  „Það er farið að skilgreina öryggi í netheimum sem grundvallar­þátt í öryggi samfélaga. Þetta er eiginlega sjálfsagður hlutur að reyna að hafa í lagi, eftir því sem frekast er kostur,“ segir Ögmundur Jónasson, samgöngu- og sveitarstjórnar­ráðherra.

Eins og fjallað hefur verið um í Fréttablaðinu undanfarið hafa íslensk stjórnvöld setið eftir í netöryggismálum. Slík viðbragðsteymi hafa verið starfandi víða í nágrannalöndunum árum saman.

„Þetta hefur verið til athugunar um nokkurt skeið í samgönguráðuneytinu og hjá Póst- og fjarskiptastofnun. Nú hefur fengist samþykki fyrir því í ríkisstjórn að Póst- og fjarskiptastofnun verði falið að setja á fót teymi til að annast þetta verkefni,“ segir Ögmundur.

Hann segir að kallaðir verði til flestir sem starfandi séu í þessum geira til ráðgjafar við stofnun hópsins. Markmiðið sé að koma þessum málum í markvissan farveg. Kostnaður við stofnun og rekstur viðbragðshópsins verður til að byrja með greiddur af fjárveitingum Póst- og fjarskiptastofnunar.

Hrafnkell V. Gíslason, forstjóri Póst- og fjarskiptastofnunar, segir að til að byrja með verði sett á laggirnar teymi með tveimur eða þremur starfsmönnum sem sinna muni þessu verkefni eingöngu. Þeir muni fá stuðning frá öðrum starfsmönnum stofnunarinnar eftir því sem þurfa þyki.

Hann segir að áhersla verði lögð á samstarf við sambærilega hópa í nágrannalöndunum. Víða erlendis vakta slíkir hópar netumferð allan sólarhringinn, en Hrafnkell segir það ekki standa til í bili.

Ekki er hægt að meta hver kostnaður við stofnun viðbragðshópsins verður. Í skýrslu Póst- og fjarskiptastofnunar frá því í desember 2008 kemur fram að kostnaður fyrsta árið geti verið um 49 milljónir króna, og árlegur kostnaður eftir það um 42 milljónir. Þar er þó gert ráð fyrir heldur stærri hóp en þeim sem nú verður komið á fót.

Hrafnkell segir Póst- og fjarskiptastofnun annt um að upplýsa almenning um öryggismál. Stofnun­in haldi meðal annars úti vefnum netoryggi.is, þar sem hægt sé að fá upplýsingar um tölvuöryggi á mannamáli.

brjann@frettabladid.is

Ögmundur Jónasson



Fleiri fréttir

Sjá meira


×