Erlent

Ellismellir í vígahug

Óli Tynes skrifar

Fjórir þýskir ellilífeyrisþegar hafa verið dæmdir til fangelsisvistar fyrir að ræna fjármálaráðgjafa sínum og halda honum í gíslingu í fjóra daga.

Fjármálaráðgjafinn lagði fé skjólstæðinga sinna í fasteignamarkaðinn í Bandaríkjunum, en þangað má einmitt rekja upphaf fjármálakreppunnar sem nú hrjáir heimsbyggðina.

Fólkið tapaði þar ævisparnaði sínum um 460 milljónum króna. Það rændi svo fjármálaráðgjafanum í júní á síðasta ári, batt hann og keflaði og tróð honum í skottið á bíl.

Hann var fluttur í prísund þar sem hann var neyddur til þess að undirrita skjal um að hann myndi endurgreiða hið tapaða fé.

Eftir fjögurra daga fangavist tókst fjármálaráðgjafnum með einhverjum hætti að koma stuttum skilaboðum til félaga síns sem hafði samband við lögregluna.

Forsprakki mannræningjanna sem er 76 ára gamall var dæmdur í sex ára fangelsi. Áttræð eiginkona hans fékk 18 mánaða skilorðsbundinn dóm.

Hinn karlmaðurinn fékk fjögurra ára fangelsi og hin konan 21 mánuð skilorðsbundið. Í Þýskalandi eru þau kölluð Ellilífeyrisþegagengið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×