Handbolti

Aron: Við förum í undanúrslit

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Aron Kristjánsson, EM-sérfræðingur Vísis.
Aron Kristjánsson, EM-sérfræðingur Vísis.

Aron Kristjánsson, EM-sérfræðingur Vísis, var rétt eins og þjóðin í sjöunda himni með strákana okkar þegar Vísir heyrði í honum eftir leik. Hann spáir því að liðið sé nú komið almennilega í gang.

„Ég sagði það fyrir leikinn að það lið sem myndi vinna þennan leik færi í undanúrslit. Ég stend við það og spái því að við förum í undanúrslit," segir Aron.

„Þetta var frábær leikur og ég held að það hafi fyrst og fremst verið andlegt ástand leikmanna sem gerði þetta kleift. Strákarnir sýndu mikinn andlegan styrk. Menn voru dýrslegir eins og ég hafði verið að óska eftir. Ingimundur og Sverre alveg frábærir í vörninni og allt liðið að vinna vel hver fyrir annan.

„Bjöggi svo frábær í markinu og strákarnir slökktu þess utan bæði í Mikkel Hansen og Lars Christiansen. Það gerir ekki hvaða lið sem er. Það voru svo margir að skila sínu í sókninni og frábær innkoman hjá Aroni. Danir urðu að endurskipuleggja svolítið vörnina þegar hann kemur inn með sína skotógn.

„Róbert og Arnór magnaðir og svo eru hornamennirnir okkar í heimsklassa. Góðir í hornunum og geta svo báðir skotið fyrir utan. Það er einstakt að eiga slíka hornamenn. Óli lét sér eitt mark nægja en hann er klókur spilari, spilaði sína menn uppi, tímasetti sendingar vel og vissi vel hvort hann átti að skjóta eða ekki," segir Aron en hvernig líst honum á andstæðingana í milliriðlinum?

„Mjög vel. Króatar hafa ekki verið svona veikir lengi og sakna Lackovic augljóslega mikið. Það sést vel á því að þeir hafa verið í vandræðum í öllum sínum leikjum. Við erum svo skrefi framar en bæði Norðmenn og Rússar og eigum því að klára þá leiki."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×