Lífið

Bjórinn felldi Finna, ekki Andra

Finnski fréttamaðurinn Kimmo Wilska var rekinn fyrir að taka sopa af bjór í beinni útsendingu. Finnar eru ansi strangir, enda fékk Andri Ólafsson að gera það sama í fréttum Stöðvar 2.
Finnski fréttamaðurinn Kimmo Wilska var rekinn fyrir að taka sopa af bjór í beinni útsendingu. Finnar eru ansi strangir, enda fékk Andri Ólafsson að gera það sama í fréttum Stöðvar 2.
Finnski fréttamaðurinn Kimmo Wilska var á dögunum rekinn úr starfi sínu sem fréttaþulur eftir að hann sást taka sér sopa af bjór eftir að hafa lesið frétt sem fjallaði um áfengislöggjöfina í Finnlandi.

Fjölmiðlar um allan heim hafa fjallað um hrakfarir Wilska. Fréttamönnum í Finnlandi er augljóslega sniðinn þrengri stakkur en þeim íslensku, en fréttamaðurinn Andri Ólafsson gerði nákvæmlega það sama í útsendingu frétta Stöðvar 2 á dögunum.

„Þetta er nú ekki alveg sambærilegt. Í minni frétt smakkaði ég stórmerkilegan bjór, bruggaðan úr íslensku byggi. Það hefur ekki áður verið gert,“ segir Andri spurður hvort hann hafi verið sleginn þegar hann frétti af uppsögn Kimmo fréttamanns. „Finnski brandarakallinn var bara að reyna að vera fyndinn, sem er ekki góð hugmynd því Finnar eru frægir fyrir húmorsleysi.“

Gjörningur Andra virtist ekki fara fyrir brjóstið á mörgum, þó að sjálfskipaði málfarsráðunauturinn Eiður Guðnason, sem bloggar á Eyjan.is, hafi sagt bjórdrykkju fréttamannsins orka tvímælis. „Það er nú frekar erfitt að gera honum til geðs,“ segir Andri, rólegur að vanda.- afb





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.