Skoðun

Fáein orð um mikinn viðburð

Birgir Sigurðsson skrifar

Síðastliðið þriðjudagskvöld flutti Kammerkór Suðurlands, ásamt einsöngvurum og kammersveit, tónlist eftir breska tónskáldið John Tavener.

Tónleikarnir fóru fram í Kristskirkju. Stjórnandi var Hilmar Örn Agnarsson.

Ég hef frá því ég var ungur að árum verið á mörgum góðum og merkilegum tónleikum í Kristskirkju. En þessi stund með tónlist Taveners var einhver sú dýpsta og tignarlegasta sem ég hef átt á tónleikum. Verk hans hans voru í senn full af mannlegri reisn og djúpstæðri auðmýkt sem aðeins mestu listamenn geta fært fram. Og flutningur tónlistarmannanna var svo einstaklega sannur og magnaður að hvergi varð skilið milli flutnings og tónverks.

Engu líkara var en tónleikagestir hefðu átt von á einhverju stórkostlegu: Þeir troðfylltu kirkjuna; allir aukastólar setnir. Og þetta stórkostlega og afar sjaldgæfa gerðist: Tónlistin, flytjendur og áheyrendur urðu ein samtvinnuð heild í fágætlega djúpri upplifun.

Á slíkum stundum ríkrar og sameiginlegrar reynslu finnum við að innst í verund okkar erum við öll eitt og hið sama: Manneskjan í sínu æðsta veldi og tign.



Ég þakka fyrir mig.










Skoðun

Sjá meira


×