Þriðji þáttur af grínþættinum Steindanum okkar var sýndur á Stöð 2 á föstudag. Var hann jafn fyndinn og hinir tveir með mörgum óborganlegum atriðum.
Fréttablaðið og Vísir sögðu í gær frá hnífabardaga Páls Óskars og Jóa Fel í einu atriðanna. Bardaginn var hluti af sprenghlægilegu myndbandi við rapplag þar sem Steindi segir vinum sínum skrautlegar bransasögur við gerð þáttanna.
Myndbandið er nú komið á Netið og er sjón sögu ríkari. Þarna segir Steindi frá því hvernig Sveppi drekkur stíft á bak við tjöldin, Jón Ársæll mætti í grillpartí og endaði á því að grilla á sér handlegginn og þegar hausinn á Jóa Fel sprakk eftir bardagann við Pál Óskar.
Rapplagið heitir Bransasögur en auk myndbandsins góða er lagið sjálft þrusugott. Í fyrsta þættinum flutti Steindi einmitt rapplagið Newcastle United sem var ekki síðra.
Það kemur kannski ekki á óvart að félagarnir á bakvið þáttinn kunni sitt fag þegar kemur að rappinu. Leikstjórinn Ágúst Bent er einn meðlima rappgrúppunnar XXX Rottweilerhunda og þekktir taktsmiðir á borð við Danna Deluxx hafa hjálpað til við gerð laganna.
Myndbandið við Bransasögur má sjá hér.
Myndbandið við Newcastle United má sjá hér.