Innlent

Formaður Samtaka iðnaðarins vill þjóðstjórn

Helgi Magnússon var endurkjörinn formaður Samtaka iðnaðarins fyrr í dag.
Helgi Magnússon var endurkjörinn formaður Samtaka iðnaðarins fyrr í dag.
Helgi Magnússon, formaður Samtaka iðnaðarins, vill að mynduð verði þjóðstjórn. Þjóðina skorti leiðtoga sem geta gefið raunhæfa von. Þetta var meðal þess sem kom fram í ræðu Helga á Iðnþingi í dag.

„Það átti auðvitað að semja pólitískt vopnahlé þannig að allir gætu tekið höndum saman um að greiða úr hinum mikla vanda. Það hefði átt að koma á þjóðstjórn. Ég er enn þeirrar skoðunar að þjóðstjórn sé nú heppilegasta leiðin. Hvað gera þjóðir sem lenda í stríði? Þær víkja öllu til hliðar og fást við þá þjóðarvá sem stríðsrekstur er. Hrunið á Íslandi jafnast á við stríðsástand og kallar á úrræði til samræmis. Ég kenni engum stjórnmálaflokki umfram annan um það að ekki hefur verið efnt til þjóðstjórnar," sagði Helgi og bætti við að samstarf núverandi stjórnar og stjórnarandstöðu við lausn Icesave-málsins að undanförnu gefa von um að þverpólitísk samstaða sé hagsmunum þjóðarinnar til framdráttar.

Hinn almenna borgara vantar leiðsögn, að mati Helga. „Fólk hefur ekki getað lyft séu upp úr farvegi vonbrigða og vonleysis eftir það sem gerðist. Okkur hefur skort leiðtoga, sem geta gefið raunhæfa von."

Helgi sagði að á sama tíma blómstri niðurrifsöflin. Neikvæð umræða einkenni fjölmiðla, svonefnda bloggheima, álitsgjafa og sérfræðinga, jafnt raunverulega, tilbúna og sjálfskipaða. „Það er því miður frjór jarðvegur fyrir neikvæðni, hefnigirni, reiði og hatur sem alið er á af miklum móð."

Segir stjórnvöld hræða erlenda fjárfesta

Helgi sagði Samtök iðnaðarins hafa eindregið hvatt til þess að leið verðmætasköpunar væri rétta leiðin út úr efnahagsvanda Íslendinga í stað skattahækkunarleiðarinnar.

„Framganga stjórnvalda hefur hins vegar verið þannig að hún hræðir erlenda fjárfesta frá þegar við þurfum mest á þeim að halda. Ítrekaðir tafaleikir umhverfisráðherra, m.a. vegna synjunar á staðfestingum í tengslum við virkjun neðri hluta Þjórsár og áður vegna svonefndrar suðvesturlínu á Reykjanesi, eru alvarleg dæmi um það. Hér er verið að knýja fram pólitíska stefnu sem gengur gegn hagsmunum þjóðarinnar og leiðir af sér minni hagvöxt en ella, meira atvinnuleysi, minni kaupmátt og verri stöðu ríkissjóðs og sveitarfélaga til að verja velferðar-og menntkerfin í landinu," sagði formaðurinn.

Ennfremur sagði Helgi að skjót og skynsamleg nýting orkuauðlindanna, auk allra þeirra tækifæra sem unnt er að nýta með markvissum hætti, muni ráða úrslitum um endurreisn efnahagslífsins.



Vill lækka skatta


Helgi sagði að tækifærin væru allt í kringum okkur. Gamlar og nýjar stoðir atvinnulífsins gætu skilað okkur uppgangi að nýju. Leysa verði þessa krafta úr læðingi og rjúfa þá kyrrstöðu sem nú ríki.

„Burt með gjaldeyrishöftin, áfram niður með vaxtastigið, lækkum skatta að nýju, nýtum vel það umsóknarferli að ESB sem nú er hafið, komum gjaldmiðlamálum Íslendinga í viðunandi farveg, vinnum á verðbólgunni og tryggjum stöðugleika. Þá styrkist krónan og við það batna lífskjörin."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×