Handbolti

Aron: Nota þetta vonandi sem spark í rassinn

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Aron Kristjánsson.
Aron Kristjánsson.

Aron Kristjánsson, EM-sérfræðingur Vísis, segir að það sé ekki nein ástæða fyrir íslenska landsliðið að örvænta þó svo það hafi misst niður unnin leik gegn Serbum í gær.

„Það sama gerðist á EM 2002 í Svíþjóð er liðið missti niður unnin leik á móti Spánverjum. Þá efldust menn og strákarnir gera það líka vonandi núna, nýta þennan leik sem spark í rassinn. Þeir verða að taka það jákvæða úr leiknum sem er að þeir spiluðu lengst af mjög vel," sagði Aron.

„Mér fannst liðið samt spila vel lengstum í gær. Það byrjaði frábærlega, vörnin var mögnuð og Björgvin flottur þar fyrir aftan. Það var ótrúleg orka og vinnsla í liðinu. Sverre og Ingimundur alveg magnaðir.

„Svo misstu menn dampinn í síðari hálfleik. Það var kannski ekki skrítið þar sem vinnslan var svakaleg í fyrri hálfleik. Áræðnin fór úr leik liðsins og markvarslan hvarf einnig. Þeir skoruðu of auðveldlega gegn okkur og fyrir vikið komst aldrei nein ró á sóknarleikinn okkar. Hver mistök í leiknum voru dýr.

„Sóknarleikurinn var samt lengstum fínn en vörnin gaf allt of mikið eftir í síðari hálfleik," sagði Aron en fannst honum liðið virka þreytt í síðari hálfleik?

„Þegar lið tapar 4-0 á síðustu 5 mínútunum þá spyr maður sig eðlilega að því. Undirbúningurinn var strembinn og stutt síðan liðið kom frá Frakklandi. Svo var Gummi að spila mikið á sömu mönnunum í gær en hann verður að nota allan hópinn betur því það er mikið af erfiðum leikjum eftir."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×