Innlent

Búast við 120 skemmtiferðaskipum í sumar

Seven Seas Voyager við höfnina.
Seven Seas Voyager við höfnina.

Það eru ekki allir ferðamenn sem koma fljúgandi til landsins í sumar. Tugþúsundir koma siglandi með skemmtiferðarskipum sem hafa viðkomu víða um land.

Fröken Reykjavík var á spariskónum þegar hún bauð ferðamönnum af fyrstu skemmtiferðarskipunum á vegum TVG Zimsen-Eimskip Cruise Agency upp í dans í blíðskaparveðri en þau komu til hafnar í gær.

Ferðamennirir á NG Explorer og Seven Seas Voyager gripu líka tækifærið og sveifluðu sér úr skipunum í miðbæinn þar sem þeir spókuðu sig í góða veðrinu, kíktu í búðir og nutu mannlífsins. Reykvíkingar og aðrir landsmenn eiga eftir að sjá mikið af erlendum ferðamönnum í sumar því þau verða mörg skemmtiferðaskipin sem eiga eftir að festa hér landfestar.

,,Við erum með bókaðar um 120 viðkomur skemmtiferðaskipa til Íslands en þar af koma 40 til Reykjavíkur," segir Björn Einarson framkvæmdastjóri TVG-Zimsen.

,Fyrirtækið veitir skemmtiferðaskipum þjónustu í öllum höfnum landsins en við erum með samhæfða og öfluga stjórnstöð í Reykjavík. TVG-Zimsen - Eimskip Cruise Agency aðstoðar við áhafnarskipti, útvegun vista, varahluta og læknisþjónustu. Þá fara öll samskipti skips við höfn, toll og útlendingaeftirlit í gegnum umboðsþjónustuna, auk þess sem við sjáum um að að panta flug, gistingu og ferðir til og frá skipum."

Um 72 þúsund farþegar komu til landsins sjóleiðina á síðasta ári.

,,Það var 16% aukning frá árinu 2008 en það lítur út fyrir frekari fjölgun í ár. Ferðamennirnir skapa bæði atvinnu og koma með gjaldeyri inn í landið svo þettar er jákvæð þróun," segir Björn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×