Erlent

Hafa helst áhyggjur af Ischiu

Friðsældin er úti ef eldfjallið vaknar af dvala. nordicphotos/AFP
Friðsældin er úti ef eldfjallið vaknar af dvala. nordicphotos/AFP

Ítalía, AP Næsta eldgos á Ítalíu gæti orðið á hinni friðsælu eyju Ischia, frekar en í hinu illræmda fjalli Vesúvíusi. Ekki er þó talin hætta á gosi alveg á næstunni.

„Ef ég ætti að segja hvaða eldfjall er komið næst því að gjósa, þá myndi ég ekki nefna Vesúvíus heldur Ischiu," segir Guido Bertolaso, yfirmaður almannavarna á Ítalíu.

Undir eyjunni er kvikuhólf, sem samkvæmt mælingum hefur verið að þenjast út. Engin hreyfing hefur hins vegar mælst í Vesúvíusi, sem síðast gaus með látum árið 1944.

Ischia er þekkt ferðamannaeyja skammt út frá borginni Napólí, ekki langt frá eyjunni Capri sem einnig dregur að sér ferðamenn í stórum stíl.

Eldgos í Vesúvíusi yrði afar hættulegt, því í hlíðum fjallsins býr meira en hálf milljón manna og borgin Napólí er í næsta nágrenni með eina milljón manns. Eldgos í Ischiu yrði þó ekki síður skeinuhætt íbúum Napolí, því eyjan er rétt fyrir utan Napolíflóa.

Síðast gaus í Ischiu árið 1302, eða fyrir rúmum sjö hundruð árum. Þá höfðu liðið rúm þúsund ár frá síðasta gosi árið 295, en eldvirkni var tíð á öldunum þar á undan, þegar sjaldan liðu meira en hundrað ár milli gosa og stundum aðeins fáir áratugir. - gb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×