Innlent

Börnum yngri en 18 ára bannað að fara í ljós

Alþingi samþykkti í dag frumvarp heilbrigðisráðherra sem bannar börnum 18 ára og yngri að nota sólarlampa eða ljósabekki eins og rætt er um í daglegu tali. Geislavarnastofnanir Norðurlandanna hafa varað við notkun ljósabekkja, sérstaklega hjá ungu fólki.

Frumvarpið var samið í heilbrigðisráðuneytinu í samstarfi við Geislavarnir ríkisins. Bannið er sett á grundvelli heilbrigðissjónarmiða og í ljósi þess að útfjólublá geislun frá sólarlömpum er nú flokkuð sem krabbameinsvaldandi.

Frumvarpið var samþykkt með 40 atkvæðum gegn 10. Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, sagði að verið væri að fara auðveldu leiðina þar sem ekki væri verið að leysa vandamálið. Í stað þess að banna notkun ljósabekkja á ákveðnum aldurshóp á að auka fræðslu, að mati Ragnheiðar Elínar.

Siv Friðleifsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, benti á að húð barna og unglinga væri mun viðkvæmari en hún fullorðinna. Um forvarnarmál væri að ræða þar sem fræðsla um skaðsemi ljósabekkja hefði ekki skilað sér. Hún sagði að það væri ábyrgðarhluti að segja nei í atkvæðagreiðslunni líkt og níu þingmenn Sjálfstæðisflokksins og Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, gerðu.

Sigmundur Ernir Rúnarsson, þingmaður Samfylkingarinnar, tók undir með Siv og sagðist taka afstöðu með börnum og unglingum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×