Innlent

Ríkisstjórnin ræðir netöryggi

Ekki hafa fengist nákvæmar upplýsingar hjá samgönguráðuneytinu um stöðu mála.Nordicphotos/AFP
Ekki hafa fengist nákvæmar upplýsingar hjá samgönguráðuneytinu um stöðu mála.Nordicphotos/AFP
Ögmundur Jónasson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, ætlar að kynna tillögur um viðbrögð og vinnulag vegna net­öryggis á fundi ríkisstjórnarinnar á föstudag. Verið er að leggja lokahönd á málið í ráðuneytinu, samkvæmt upplýsingum þaðan.

Eins og Fréttablaðið hefur fjallað um undanfarið eru stjórnvöld illa búin undir hvers konar tölvuárásir og tölvuvandamál sem upp gætu komið. Ekki hafa fengist nákvæmar upplýsingar frá ráðuneytinu um stöðu mála þrátt fyrir að eftir því hafi verið leitað.

Unnið hefur verið að net­öryggismálum innan Póst- og fjarskiptastofnunar. Í skýrslu stofnunar­innar frá árinu 2008 er bent á að veruleg ógn stafi að íslenskum netkerfum vegna tölvuárása, netglæpa og skemmdarverka. Þar er hvatt til þess að stjórnvöld stofni sérstakan viðbragðshóp. Í fjarskiptaáætlun fyrir árin 2005 til 2010, sem samþykkt var á Alþingi, er kveðið á um stofnun slíks hóps.

Viðbragðshópar hafa verið starfandi lengi í nágrannalöndunum. Starfsemi viðbragðshóps norskra stjórnvalda hófst til að mynda í ársbyrjun 2003. - bj



Fleiri fréttir

Sjá meira


×