Lífið

Pétur og Ragna eiga níuhundruð málverk

Verk í eigu Péturs Arasonar og eiginkonu hans, Rögnu Róbertsdóttur, eru sýnd á Kjarvalsstöðum í tengslum við Listahátíð.
Fréttablaðið/Vilhelm
Verk í eigu Péturs Arasonar og eiginkonu hans, Rögnu Róbertsdóttur, eru sýnd á Kjarvalsstöðum í tengslum við Listahátíð. Fréttablaðið/Vilhelm

Sýningin Annað auga - Úr safni Péturs og Rögnu opnaði á Kjarvalsstöðum fyrir helgi í tengslum við Listahátíð Reykjavíkur. Þar má sjá valdar ljósmyndir úr safni listsafnarans Péturs Arasonar og eiginkonu hans Rögnu Róbertsdóttur.

„Ég hóf að safna verkum fyrir um fjörutíu árum síðan og eru verkin orðin eitthvað um níuhundruð talsins. Verkin eru flest eftir samtímalistamenn, bæði evrópska og bandaríska og flestir eru þeir enn á lífi í dag þó einhverjir séu látnir," útskýrir Pétur. Aðspurður segist hann varla hafa pláss fyrir öll verk sín lengur því ekki komist þau fyrir á veggjunum heima hjá honum. „En einhverstaðar kemst þetta fyrir," segir hann og hlær.

Inntur eftir því hvað heilli hann einna mest við nútímamyndlist segist hann eiga erfitt með að svara því. „Myndlist er vítt svið og ég veit ekki hvort það sé eitthvað eitt sem heillar mig meira en annað. En nú getur fólk komið og séð með eigin augum hverskonar ljósmyndir hafa heillað mig í gegnum tíðina."

Pétur segist duglegur að fylgjast með því sem gerist innan listaheimsins enda hljóti listaverkasafnari að þurfa að fylgjast vel með. Hann fer oft út vegna vinnu sinnar og reynir þá að sækja ýmsar listasýningar í leiðinni.

„Það er kannski einhver árátta sem fylgir þessu, ég get ekki sagt annað, en maður verður að hafa áhuga á því sem maður er að gera," segir Pétur sem lánar gjarnan verk sín til sýninga bæði hér heima og erlendis.

„Það er misjafnt hvort það sé eitt verk eða mörg sem eru lánuð, en það er alltaf jafn gaman að sjá verk sína á svona sýningum." -sm

 

 








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.