Enski boltinn

Beiðni Portsmouth um að fá að selja leikmenn var hafnað

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Frederic Piquionne hjá Portsmouth
Frederic Piquionne hjá Portsmouth Mynd/AP
Stjórnarmenn ensku úrvalsdeildarinnar ætla ekki að heimila Portsmouth að fá að selja leikmenn utan félagsskiptagluggann til þess að safna peningum fyrir skattaskuld félagsins.

„Stjórn ensku úrvalsdeildarinnar getur staðfest það að beiðni Portsmouth, um að fá að selja leikmenn utan félagsskiptagluggans, hafi verið tekin fyrir á fundi. Við þökkum fyrir góða hjálp frá FIFA og enska knattspyrnusambandinu en eftir að hafa skoðað vel allar hliðar málsins er það mat okkar að þetta sé ekki rétta leiðin á þessum tímapunkti," sagði í yfirlýsingu frá stjórn ensku úrvalsdeildarinnar.

Avram Grant, stjóri Portsmouth, var enn á ný spurður um fjárhagsstöðuna á blaðamannafundi fyrir leikinn á móti Stoke í dag.

„Ég vil ekki tala um þetta því ég kom til þessa félags til að bjarga liðinu frá falli. Í hverri viku og stundum á hverjum degi kemur eitthvað nýtt upp og ég veit ekki hvort þetta getur talist sorglegt eða broslegt," sagði Avram Grant.

„Við náðum góðum úrslitum á móti Southampton í bikarnum og ég taldi að þetta væri búið í bili þar sem að það væri búið að loka félagsskiptaglugganum. Það er samt ekki hægt að halda því fram að menn hjá þessum klúbbi séu ekki tilbúnir að leita nýstárlegra leiða," sagði Grant.

David Gold, annar eiganda West Ham, steig fram í gær og bauð tíu milljóna punda lán til Portsmouth þannig að félagið gæti klárað tímabilið. Þarna liggur kannski næsta von Portsmouth um að forðast gjaldþrot.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×