Erlent

Beittu táragasi gegn mótmælendum

Mikið hefur verið um óeirðir í Grikklandi vegna bágs efnahagsástands.
Mikið hefur verið um óeirðir í Grikklandi vegna bágs efnahagsástands.

Gríska óeirðalögreglan beitti táragasi á ungmenni í Aþenu í Grikklandi í morgun þegar fyrsta maí gangan þar fór framhjá fjármálaráðuneyti landsins. Þúsundir manna streymdu út á götur Aþenu í morgun og ástandið er sagt viðsjárvert.

Einnig eru fregnir af svipuðum átökum milli mótmælenda og lögreglu í borginni Þessalóníku í norðurhluta landsins þar sem ungmenni munu hafa ráðist á fyrirtæki. Þúsundir Grikkja hafa í morgun tekið þátt í kröfugöngum dagsins og mótmælt áætlunum stjórnvalda um harkalegan niðurskurð.

Aðgerðirnar eru skilyrði Evrópusambandsins fyrir yfir hundrað milljarða evra björgunarpakka. Gríðarleg andstaða er við niðurskurðinn meðal almennings í Grikklandi en þar búast menn við að laun verði skorin niður, skattar hækkaðir og ellilífeyrir lækkaður. Björgunarpakkinn á að koma í veg fyrir að gríska ríkið fari í þrot vegna óviðráðanlegra skulda.

Fréttamaður BBC í Aþenu segir andrúmsloftið í borginni alvarlegt en verkalýðsfélögin sem standa fyrir kröfugöngunum vonast til að mótmælin sýni stjórnvöldum, Evrópusambandinu og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum að félögin hafi nægan mannafla til að berja niður fyrirhugaðar niðurskurðaraðgerðir.

Könnun frá því í vikunni sýnir að um helmingur grísku þjóðarinnar er reiðubúinn að streyma út á göturnar til að stöðva aðgerðir stjórnvalda. George Papandreou forsætisráðherra Grikklands segir aðgerðirnar nauðsynlegar til að bjarga landinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×