Skoðun

Viltu leyfa börnum að fara í sund Svandís

Ómar Stefánsson skrifar

Sæl Svandís. Frænka þín í bæjarstjórn Kópavogs sagði við mig að ég ætti bara að skrifa þér bréf ef ég hefði svona mikinn áhuga á því að börn 8-10 ára hefðu leyfi til þess að fara í sund án forráðamanna sinna. Ég ákvað að hafa þetta opið bréf til þín vegna þess að það er ágætt að fá smá umræðu um þá ákvörðun að banna tveimur árgöngum barna að fara með jafnöldrum sínum í sund.

Það er töluvert sem mælir gegn því að herða þessar reglur ef ekki eru fyrir því góð og gild rök Ég hef verið að tala við „sundsérfræðinga" og reynt að fá rök eða ástæðu studda einhverjum tölum en ekkert fengið. Þetta bann kemur í veg fyrir töluverða hreyfingu fyrir börn.

Sérstaklega þau sem eru svo heppin að búa nálægt sundlaugum og hafa til þessa getað farið ein í sund. Þetta þekki ég persónulega, því dóttir mín sem er 9 ára eyddi töluverðu af sumrinu í Sundlaug Kópavogs með vinkonum sínum.

Sundnámskeið á vegum íþróttafélaga og sveitarfélaga eru nú í boði fyrir unga krakka og ekki má gleyma ungbarnasundinu, auk þess eru einhverjir leikskólar farnir að bjóða upp á námskeið fyrir elstu börnin. Sundstöðum hefur fjölgað töluvert þau ár sem það hefur verið leyfilegt fyrir börn frá áttunda ári að fara ein í sund og ég leyfi mér að fullyrða að öryggisgæslan hafi batnað mikið. Ég leyfi mér líka að efast um að foreldrar sem fara með börn sín í sund yrðu mikið í því að fara á eftir 8 og 9 ára börnum sínum í sundlaugina eftir að hafa setið í heita pottinum. Eftirlitið er því áfram á ábyrgð starfsfólks sundstaða.

Það er víst margt fleira í þessari reglugerð sem þeir sem til þekkja hafa athugasemdir við. Ég skora því á þig að fresta gildistökunni og fá frekari umsagnir þeirra sem þekkingu hafa á þessum málum. Ef það er ekki möguleiki þá bið ég þig að endurskoða ákvörðunina með aldurinn, því hvað er skemmtilegra en að busla í vatni þegar maður er barn.








Skoðun

Sjá meira


×