Handbolti

Pólverjar tryggðu sér sigur í C-riðli með ótrúlegum endaspretti

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bartosz Jurecki tryggði Pólverjum jafntefli í kvöld.
Bartosz Jurecki tryggði Pólverjum jafntefli í kvöld. Mynd/AFP

Pólverjar náðu að tryggja sér 30-30 jafntefli á móti Slóveníu og þar með sigurinn í C-riðli með þvi að skora fjögur síðustu mörk leiksins. Pólverjar fara því með þrjú stig inn í milliriðilinn en Slóvenar taka tvö stig með sér. Þýskaland hafði fyrr í dag tryggt sér þriðja sætið með sigri á Svíum.

Slóvenar voru fjórum mörkum yfir þegar fimm mínútur voru eftir en Pólverjar voru ekkert á því að gefa frá sér stigið og sigurinn í riðlinum. Bartosz Jurecki skoraði jöfnunarmarkið 31 sekúndu fyrir leikslok.

Slóvenar komust yfir fyrir leikhlé með góðum spretti í lok hálfleiksins. Slóvenar skoruðu þá þrjú mörk í röð og komust í 12-10 en Pólverjar minnkuðu muninn aftur í eitt mark fyrir leikhlé og staðan var 13-12 fyrir Slóvena í hálfleik.

Krzysztof Lijewski skoraði sex mörk fyrir Pólvjera og þeir Bartosz Jurecki og Mariusz Jurasik voru báðir með fjögur mörk. Slawomir Szmal varði 20 skot í markinu.

Luka Zvizej skoraði níu mörk og þeir Miha Zvizej og Renato Vugrinec voru báðir með sex mörk. Gorazd Skof varði 22 skot í markinu þar af 3 víti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×