Handbolti

Róbert: Vona að mótlætið styrki okkur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Linz skrifar
Róbert Gunnarsson tekur hér á einum Austurríkismanninum.
Róbert Gunnarsson tekur hér á einum Austurríkismanninum. Mynd/Leena Manhart
Róbert Gunnarsson segir að það hafi verið erfitt að horfa á upptökur úr leik Íslands og Austurríkis á fundi landsliðsins í dag.

„Það var ekkert gaman að fara yfir þennan leik enda í annað skiptið sem hlutirnir gengu ekki upp hjá okkur. En þetta er eitthvað sem við verðum að tækla og vonandi vinnum við okkur úr því."

„Ég vona að mótlætið styrki okkur og við ætlum okkur alltaf að mæta fullir eldmóðs til leiks. Núna þurfum við að taka skrefið til fulls og halda við okkar leikáætlun. Ég hef fulla trú á að það takist á morgun gegn Dönum."

Róbert segir að sóknarleikurinn hafi verið góður á mótinu hingað til. „Það var gott að Óli og Snorri hafi stutt vel við Arnór í gær og það er ekki leiðinlegt að vera með þessa þrjá fyrir utan að gefa inn á línuna. Þetta er örugglega eina liðið í heiminum sem býr svo vel."

„En það má ekki gleyma að hugsa áfram um sóknarleikinn þó svo að vel hafi gengið. Danir munu örugglega spila sterkari varnarleik en Austurríki gerði í gær og þá er verður ekkert víst að 37 mörk muni duga til."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×