Innlent

330 starfsmenn CCP strandaglópar á Íslandi

Þar sem tæknin er ekki komin á sama stig og í leiknum CCP þá þurfa starfsmennirnir að sitja rólegir á Ránni.
Þar sem tæknin er ekki komin á sama stig og í leiknum CCP þá þurfa starfsmennirnir að sitja rólegir á Ránni.

„Ætli við kíkjum ekki bara á rokksafnið til þess að drepa tímann," segir Oddur Snær Magnússon, forritari hjá CCP en hann er einn af 330 starfsmönnum fyrirtækisins sem bíður í Keflavík eftir því að millilandaflug á Keflavíkurflugvelli hefjist á ný.

Oddur Snær er á leiðinni til Mexíkó ásamt starfsfélögum sínum á vegum starfsmannafélags tölvuleikjaframleiðandans CCP.

Starfsmennirnir mættu eldsnemma í morgun upp á Leifsstöð upp á von og óvon um að komast til Mexíkó þar sem starfsmenn hyggjast gera sér dagamun. Starfsmenn fyrirtækisins í Kína og Bandaríkjunum fara einnig til Mexíkó.

Kínversku starfsmennirnir lentu fyrr í dag. Á meðan situr Oddur Snær ásamt vinnufélögum á veitingahúsi í Keflavík.

„Við sitjum hérna á Ránni," segir Oddur Snær. Aðspurður segir hann starfsmennina í góðu skapi þrátt fyrir að fríið styttist með hverri klukkustundinni.

Ekki er ljóst hvenær flugbanninu verði aflétt. Starfsmennirnir halda þó í vonina um að geta flogið suður á bóginn um kvöldmatarleytið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×