Lífið

Yfirvofandi verðlaunað í keppni útvarpsleikhúsa

Sigtryggur Magnason leikskáld getur verið ánægður með árangurinn.
Sigtryggur Magnason leikskáld getur verið ánægður með árangurinn.

Um helgina voru tilkynnt úrslit í keppni útvarpsleikhúsa á Norðurlöndunum um besta útvarpsleikverkið. Hlaut Útvarpsleikhúsið - RÚV önnur verðlaun fyrir Yfirvofandi eftir Sigtrygg Magnason í leikstjórn Bergs Þórs Ingólfssonar og með frumsaminni tónlist Úlfs Eldjárns.

Edda Arnljótsdóttir, Ingvar E. Sigurðsson og Jörundur Ragnarsson fóru með hlutverkin í verkinu. Hljóðvinnslu annaðist Einar Sigurðsson. Deilir Útvarpsleikhúsið öðru sæti með útvarpsleikhúsi sænska ríkisútvarpsins, SR, sem sendi verkið Gas í keppnina, þar sem þau urðu jöfn að stigum.

Fyrstu verðlaun féllu í skaut útvarpsleikhúss norska ríkisútvarpsins fyrir verkið Salme fra Østfronten.

Norðmenn urðu einnig hlutskarpastir síðast þegar verðlaunin voru veitt, árið 2008. En þar áður, árið 2005, hampaði Ísland fyrstu verðlaununum fyrir Svefnhjólið eftir Gyrði Elíasson í útvarpsleikgerð og leikstjórn Bjarna Jónssonar með tónlist eftir hljómsveitina múm.

Norrænu útvarpsleikhúsin þykja hvað öflugust í Evrópu, þar sem útvarpsleiklist er í hávegum höfð. Í samkeppni evrópskra útvarpsstöðva um bestu útvarpsleikverkin, Prix Europa, hafa norrænu útvarpsstöðvarnar gjarnan blandað sér í toppbaráttuna. Á síðasta ári kepptu 40 útvarpsleikverk frá 35 útvarpsstöðvum til úrslita í aðalkeppninni og hlaut Útvarpsleikhúsið 6. sæti fyrir Augu þín sáu mig eftir Sjón.

Hér á Gogoyoko er hægt að hlusta á og kaupa tónlist Úlfs Eldjárns úr Yfirvofandi.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.