Innlent

Hrygningarstofninn hruninn

Kap VE tók að sér að reyna að veiða sýkta síld úr höfninni áður en hún drapst.
fréttablaðið/óskar
Kap VE tók að sér að reyna að veiða sýkta síld úr höfninni áður en hún drapst. fréttablaðið/óskar
Hafrannsóknastofnunin leggur til að heildaraflamark í íslenskri sumargotssíld fari ekki yfir 40 þúsund tonn á komandi vertíð. Hrygningarstofninn er metinn vera 370 þúsund tonn, sem er um helmingur þess sem stofninn var metinn vera árið 2006. Vísbendingar eru um að sýkingarfaraldurinn sem herjað hefur á stofninn undanfarin tvö ár sé í rénun. Stóran hluta 2007-árgangsins, sem kemur inn í veiðina á næsta ári, var að finna nánast ósýktan í Breiðamerkurdjúpi.

Niðurstöður mælinga benda til þess að veiðistofn síldar sé um 27 prósentum minni í fjölda en hann var í október 2009, en niðurstöður Hafró í júní gerðu ráð fyrir enn minni stofni en nú mældist. Niðurstöður stofnmats benda til þess að hrygningarstofninn verði um 370 þúsund tonn í byrjun árs 2011. Um 35 prósent þess lífmassa eru metin vera sýkt nú í haust.

Þrátt fyrir að hlutfall sýktrar síldar í stofninum sé enn hátt er hlutfall nýsmits lágt. Mestur hluti sýktu síldarinnar er með sýkingu sem er langt gengin. Þessar niðurstöður eru ólíkar því sem sést hefur á undanförnum tveim árum. Þetta gæti verið vísbending um að sýkingarfaraldurinn sé í rénun, að mati Hafró. - shá



Fleiri fréttir

Sjá meira


×