Handbolti

Róbert: Ég vildi að ég hefði betri svör

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Linz skrifar
Róbert Gunnarsson nýtti öll sex skotin sín í leiknum.
Róbert Gunnarsson nýtti öll sex skotin sín í leiknum. Mynd/Leena Manhart
Róbert Gunnarsson átti erfitt með að finna réttu svörin eftir leik Íslands og Austurríkis í kvöld, eins og aðrir leikmenn íslenska landsliðsins.

„Við vorum klárlega betri aðilinn í báðum þessum leikjum," sagði Róbert og átti þá einnig við leikinn gegn Serbíu á mánudagskvöldið. Ísland missti í bæði skiptin unninn leik niður í jafntefli.

„Sóknarleikurinn gekk vel í kvöld en að sama skapi var vörnin ekki nógu góð. Ég vildi að ég hefði betri svör og ég vildi að ég væri glaðari."

„En við eigum ennþá séns. Við erum komnir í aðstöðu sem við þekkjum ágætlega. Annað hvort förum við áfram og sýnum þá góðan leik eða þá við förum heim með skottið á milli lappanna eins og einhverjir aumingjar. Það er ekkert þarna á milli."

„Við erum þó ekki langt frá því að vera með fjögur stig eftir þessa tvo leiki. Við höfum núna klúðrað tveimur leikjum í röð og er það ekki neinum sérstökum að kenna. Heldur er það liðið allt sem stendur og fellur með þessu. Það erum við sem lið sem þurfum að tækla þetta."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×