Lífið

Tískuráð fyrir lögulegar konur slá í gegn á netinu

Hólmfríður segir tískublogg sitt vera hugsað til að gefa smá innsýn inn í tískuheim lögulegra kvenna en ekkert síður til að bæta ímynd þeirra og sjálfstraust.
Hólmfríður segir tískublogg sitt vera hugsað til að gefa smá innsýn inn í tískuheim lögulegra kvenna en ekkert síður til að bæta ímynd þeirra og sjálfstraust.

„Ég hef unnið mikið í tískuvöruverslunum en svo eignaðist ég barn og þá breyttist vöxturinn aðeins. Ég átti erfiðara með að finna hluti sem klæddu mig vel og þegar ég ræddi þetta við aðrar konur þá voru þær í svipuðum sporum," segir Hólmfríður Guðmundsdóttir, margmiðlunarfræðingur hjá ferðaskrifstofunni Nordic Visitors á Laugavegi.

Hún opnaði nýverið bloggsíðu þar sem boðið er upp á tískuráð fyrir lögulegar konur en að undanförnu hafa tískublogg skotið upp kollinum eins og gorkúlur.

Þau miða hins vegar flest við að konur séu vaxnar eins og fyrirsætur tískuhúsanna en ekki „curvy" eins og það heitir á fagmálinu.

Hólmfríður nefnir einmitt þessi vinsælu tískublogg sem finna má bæði á vefsvæðinu Eyjunni og Pressunni og segir að „curvy"-konurnar gleymist stundum í umræðunni. Hún hafi einmitt farið á sýningu hjá nemum við fatahönnunardeild Listaháskóla Íslands og þar sá hún að fatahönnuðir nútímans eru ekki mikið að miða við að konur séu með laglegar línur.

„Margt af þessu var ekki einu sinni með teygjuefni þannig að það var ekki fræðilegur að maður gæti klætt sig í þetta," útskýrir Hólmfríður.

„Þetta blogg er því líka hugsað til að bæta aðeins ímyndina og sjálfstraustið og vekja fólk til umhugsunar um að níutíu og fimm prósent kvenna eru bara eðlilegar og lögulegar konar með fallegar línur," útskýrir Hólmfríður sem opnaði bloggsíðuna í lok apríl og hefur fengið mikil viðbrögð við henni.

„Mér telst til að ég hafi kannski fengið í kringum þúsund gesti á dag síðan þetta byrjaði allt saman."

Hólmfríður segist bara rétt vera að byrja en hefur þegar skotið eina goðsögnina niður. Að lögulegar konur eigi alltaf að vera í svörtu.

„Ég fór á kynningu fyrir stuttu og þar var sagt að þótt svart eigi að grenna þá lætur liturinn mann einnig líta út fyrir að vera eldri. Þótt svartur sé alltaf klassískur þá er að koma sumar og konur eiga ekki að vera smeykar við að velja björtu litina því þeir koma með þennan ferska blæ."

Tískublogg Hólmfríðar er að finna á curvychic.blog.is.

freyrgigjga@frettabladid.is








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.